MÁLMSTEYPAN HELLA

Val
Sýna12243648

Málmsmiðjan Hella hf. var stofnuð 11. maí 1949. Starfsemin hófst í gamalli hlöðu við Haga í Reykjavík. Að stofnuninni stóðu Leifur Halldórsson módelsmiður og Róbert Færgeman, danskur málmsteypumaður sem þá bjó hér á landi, ásamt nokkrum öðrum góðum mönnum sem höfðu framsýni til að leggja góðu máli lið. Allra hluta, efna og tækja varð að afla hér innanlands, sökum mjög strangra innflutningshafta. Vélar, áhöld og tæki varð ýmist að smíða eða útbúa eftir megni úr gömlum tækjum.

Steypt var úr ál- og koparblöndum. Hráefnið var gamlir brotamálmar, álið að mestu fengið úr gömlum flugvélaflökum sem menn gengu jafnvel upp til fjalla til að sækja þau. Framleiðsla fyrstu áranna stjórnaðist mest af þeirri þörf sem var í landinu sökum fyrrnefndra innflutningshafta. Í fyrstu voru framleidd búsáhöld, svo sem pottar og pönnur, svo og ýmsir hlutir til viðhalds á vélum og tækjum. Fljótlega hófst svo framleiðsla á brynningatækjum fyrir fjós, hlutum í reiðtigi, innhlutum í klósettkassa og sorprennulokum.


Reksturinn hefur verið í sérhönnuðu húsnæði að Kaplahrauni 5 í Hafnarfirði. Síðan í byrjun árs 1987 var nafni Málmsmiðjunnar Hellu hf breytt og heitir síðan Málmsteypan Hella ehf.