Uxakjöt hluti af nautakjötsframleiðslu á Íslandi

Uxakjöt hluti af nautakjötsframleiðslu á Íslandi

Nov 25, '20

Nautakjötsframleiðsla á Íslandi fyrstu 8 mánuði þessa árs var tæplega 3100 tonn. Það er um 4,6% minna magn en á sama tíma í fyrra. Á sama tíma hefur afurðaverð til bænda lækkað og aðföng hækkað.  Það eru því margir uggandi um stöðuna nú í lok ársins. En á sama tíma eru jákvæð teikn á lofti. Flestir eru sammála um að gæði framleiðslunnar hafi aukist og fjölbreytnin vaxið. Framleiðsla á íslensku uxakjöti er til marks um það að gróskan er mikil og metnaðurinn sömuleiðis.  Nýungar og útsjónarsemi framleiðanda mun án efa styrkja og efla greinina til lengri tíma litið.

Nautakjöt eins og við þekkjum það er kjöt af kvígum, uxum og nautum um tveggja ára. Margir telja kvígu og uxakjötið best því það er fitusprengdara og því meyrara. Auðvitað skiptir fóðrun gripanna einnig miklu máli en það er önnur saga. Uxaeldi hefur hins vegar ekki náð mikilli útbreiðslu hér á landi eins og víða annars staðar. Er það væntanlega vegna þess að uxar eru hægvaxta í samanburði við naut og því telja margir eldið óhagkvæmt.

Hrafnhildur Baldursdóttir og Ragnar Finnur Sigurðsson á Litla-Ármóti hafa sérhæft sig í framleiðslu á uxakjöti og leggja mikinn metnað í framleiðsluna.

Nikulás Tumi og Baldur Ragnar með kúnni Dúllu frá Litla-Ármóti

Hrafnhildur sagði aðspurð, að framleiðsla og sala á uxakjöti væri spennandi valkostur. Það er m.a. vegna þess að uxakjöt er fitusprengdara og meyrara en annað ungnautakjöt. Nautin eru gelt í kringum sex mánaða aldur. Sú aðgerð er í höndum dýralæknis, sem  deyfir dýrið og klemmir á sáðstrenginn. Ekkert blóð eða skurður og nautin eru fljót að jafna sig eftir þetta litla inngrip. Hrafnhildur sagði, að með þessu móti yrði vaxtarhraðinn hægari á nautinu og kjötið fitusprengdara og meyrara. Hugað er að velferð gripanna frá fæðingu og fram á síðasta dag. Það skiptir okkur miklu máli að dýrin hafi það sem best meðan þau eru í okkar vörslu sagði Hrafnildur. Við leggjum mikinn metnað í að skila gæðaafurð til neytanda og látum því kjötið hanga í 2 til 3 vikur þannig að útkoman verði sem allra best og úr verði lúxus(ungnauta)-uxakjöt. 

Kýrnar Bjarkey og Króna

Hrafnhildur sagði, að erlendis þekktist það að uxakjöt væri selt dýrara en hefðbundið ungnautakjöt þar sem að framleiðslukostnaðurinn sé hærri og kjötið fitusprengdara og meyrara. Hrafnhildur sagði, að fáir framleiðendur væru að framleiða og selja íslenskt uxakjöt. Margir þekkja ekki uxakjötið og fara varlega í að prufa en eftirspurnin er stöðugt að aukast eftir því sem viðskiptavinirnir átta sig á gæðum uxakjötsins, Ármóts uxa.

Litla-Ármót er m.a. í samstarfi við www.gottogblessad.is  sem hefur uxann á boðstólnum. 

 Kýrin Hæna og Maríus kálfurinn hennar