Þorrinn og Þorrablót

Þorrinn og Þorrablót

Jan 22, '21

Gott og blessað vill blóta þorrann eins og margir. En hvað er þorri og hvað eru þorrablót? Ýmsan fróðleik má finna um þorrann í gömlum bókum og á netinu.

Mánuðurinn þorri hefst á föstudegi í 13. viku vetrar. Nú á bilinu 19. til 25. janúar. Hann er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og upphaflega mun upphaf hans hafa miðast við fyrsta nýtt tungl eftir vetrarsólhvörf.

Fyrsti dagur þorra er nefndur bóndadagur en sá síðasti þorraþræll. Samkvæmt gömlum heimildum var sagt að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin færi út kvöldið áður og bjóði þorrann velkomin, og inn í bæ, eins og um tignann gest væri að ræða. Bóndinn átti hins vegar að fara fyrstur á fætur á þessum degi segir á öðrum stað.

Mánaðarheitið þorri kemur fyrir fornum heimildum eins og  í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld og í upptalningu mánaðanna í Snorra-Eddu. Margir gömlu mánaðanna í norræna tímatalinu báru mismunandi nöfn eftir heimildum, en þorri hélt alltaf nafni sínu í þeim öllum. Svipað mánaðarheiti þekkist á öðrum Norðurlöndum en þá sem nafn á janúar og jafnvel mars.

Merking orðsins er hins vegar ekki ljós og eru til margar kenningar um hana. Það er m.a. sagt að orðið sé skylt lýsingarorðinu þurr, sögninni að þverra og eins að Þorri gæti verið eitt nafna Þórs eða nafn á samnefndum fornkonungi.

Þorri er nefndur í heimildum frá miðöldum sem persónugervingur eða vættur vetrar og þar er einnig minnst á þorrablót Ekki er vitað hvernig þeim var háttað en lýsingarnar benda þó til mikilla veislna og að menn hafi gert vel við sig í mat og drykk. Fyrr á öldum virðast þorrablót fyrst og fremst hafa verið haldin á heimilum fólks og fyrir heimilisfólkið, en þorrablót eins og við þekkjum þau í dag, sem almennar veislur, og haldin eins og kallað var í upphafi „að fornum sið“, voru ekki tekin upp fyrr en undir lok 19. aldar. Talið er fyrstu Þorrablótin sem almennar veislur eigi upptök sín að rekja til íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn en frásagnir eru til af slíkri veislu frá árinu 1873.

Til eru nokkrar heimildir þess efnis að síðasti dagur þorra, þorraþræll, hafi verið tileinkaður piparsveinum og þeim mönnum sem getið höfðu börn utan hjónabands. Í dag þekkja þó flestir nafnið þorraþræll sem heiti ljóðsins sem hefst á: Nú er frost á Fróni, eftir Kristján Jónsson, fjallaskáld.

Halldór Gröndal veitingamaður og síðar prestur endurvakti þennan gamla sið þegar hann rak veitingahúsið Naustið á sínum tíma. Margir hafa síða lagt sitt af mörkum til þess að viðhalda þessum sið. Þannig hafa mörg íþróttafélög og félagasamtök haldið þorrablót og oftar en ekki hefur Múlakaffi séð um veitingarnar.

Gott og blessað selur m.a. þorrabakka frá Múlakaffi ásamt ýmsum öðrum þjóðlegum mat sem hentar vel á þorranum og reyndar alla daga ársins. gottogblessad.is