Geitakjöt sífellt vinsælla á Íslandi

Geitakjöt sífellt vinsælla á Íslandi

Nov 18, '20

Mikill vöxtur í geitfjárbúskap

 Þrátt fyrir að geitur hafi fylgt okkur Íslendingum frá landnámi þá er geitfjárbúskapur tiltölulega ný búgrein á Íslandi. Geitur komu með landnámsmönnum til Íslands og mörg örnefni á Íslandi bera þess merki eins og Hafursá, Kiðafell og Kiðjaberg. Á miðöldum og í Móðuharðindunum fækkaði geitum mjög mikið. Um 1890 voru innan við 100 geitur á Íslandi og ljóst var að stofninn var að deyja út. Á kreppuárunum stækkaði stofninn nokkuð enda hentaði það efnaminna fólki að nýta geitaafurðir. Um 1960 voru geitur fyrst og fremst notaðar sem gæludýr en um 1963 var farið að greiða stofnverndarstyrk til bænda sem vildu halda geitur. Stofninn hefur vaxið hægt og rólega síðan.

Jóhanna á Háafelli ein af frumkvöðlunum 

Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir rekur ásamt fjölskyldu sinni Geitfjársetrið að Háafelli í Hvítársíðu.  Það má segja að Jóhanna sé ein af frumkvöðlunum sem hafa af elju og áhuga komið geitfjárbúskap aftur á kortið. Jóhanna  hafði frá barnæsku dreymt um að eignast geitur sem gæludýr. Sá draumur rættist 1989. Áhugi á afurðum jókst strax mikið og þá sérstaklega á  geitamjólkinni. Jóhanna áttaði sig fljótt á því að þekkingin hvað varðar geitfjárbúskap hafði að mestu glatast hér á landi. Þess vegna leitaði hún út fyrir landsteinana og þá aðallega til Noregs til þess að afla sér þekkingar á geitfjárbúskap.

 

Í dag sel ég osta, pylsur, paté og svo auðvitað sel ég kjöt eins og læri og hryggi, segir Jóhanna. Mjólkurvörurnar sel ég hér í búðinni okkar að Háafelli en einnig í búðum eins og Gott og blessað í Hafnarfirði, bætir Jóhanna við. Geitakjötið fer hins vegar aðallega á veitingastaði og er sífellt að verða vinsælla. Margir geitabændur segja að ég hafi smitað þá, segir Jóhanna. En í dag eru um 100 bæir sem halda geitur og yfir 10 aðilar sem framleiða geitakjöt. Það má því segja að búgreinin sé í miklum vexti ef miðað er við ástandið eins og það var fyrir nokkrum árum.

 Íslenski geitastofninn hefur sérstöðu

Á undanförnum árum hefur geitum heilt yfir fjölgað. Íslenski geitastofninn hefur nokkra sérstöðu. Um er að ræða dýr sem var einangrað hér á landi í um 1100 ár og það gerir hann að einum elsta og arfhreinasta stofninum í Evrópu. Íslensku geiturnar hafa aðlagað sig að veður- og gróðurfari og lifa mest á grasi. Á öðrum stöðum eru geitur fyrst og fremst laufætur.

 

Í dag er betur búið að geitfjárbændum en áður. Mestu máli skiptir að geitfjárstofninn öðlist hlutverk sem nytjastofn til þess að festa búgreinina í sessi, segir Jóhanna. Bændur sem rækta geitur fá meðlag með skýrslufærðum geitum auk þess sem þeir fá beingreiðslur með kjöti og mjólk. Geitfjárræktarfélag Íslands var stofnað árið 1991 og nú er félagið aðili að Bændasamtökum Íslands. Það er því líklegt að geitakjöt og geitaafurðir verði algengari í framtíðinni og þá aðgengilegri fyrir neytendur.

 

Fjölbreytt úrval geitaafurða er til sölu hjá www. gottogblessad.is